Bandaríski fjárfestingabankinn Citigroup, hefur ákveðið að höfuðstöðvar bankans innan Evrópusambandsins verði staðsettar í Frankfurt samkvæmt frétt Bloomberg . Ákvörðunin kemur í kjölfarið á útgöngu Breta úr ESB sem hefur orðið til þess að fjölmörg fjármálafyrirtæki hafa þurft að leita að nýjum stað til að eiga greiðan aðgang að innri markaði sambandsins. London mun samt sem áður hýsa höfuðstöðvar bankans í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku.

Bankinn mun stækka við núverandi starfsemi sína í Frankfurt og er talið að um 150 til 250 starfsgildum verði bætt við núverandi starfsemi. Bankinn hefur ekki tekið ákvörðun um hvort að starfsmenn verði færðir frá öðrum starfsstöðvum eða muni ráða sérstaklega í nýjar stöður. Bankinn er nú þegar með 350 starfsmenn í Frankfurt.