Bandaríska sjónvarpsstöðin fjallar um handboltahetjuna Ólaf Stefánsson, þjálfara Vals, í þætti sem fjallar um afreksfólk í íþróttum. Í umfjöllun CNN segir að þótt Ólafur sé ekki heimsfrægur eins og tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir, þá sé hann það þekktur hér á landi að hann geti ekki dulist, ekki einu sinni þótt hann klæði sig í jólasveinabúning.

Í umfjöllun CNN er farið stuttlega yfir feril Ólafs, rifjað upp að hann hafi lagt skóna á hilluna með landsliðinu i handbolta á árinu sem er að líða, og þjálfi nú Val í handbolta. Ólafur segir í samtali við CNN það hafa skipt sköpum fyrir feril sinn í handbolta að hafa ekki náð inntökuprófi í læknisfræði. Það hafi gert honum kleift að æfa handbolta af meiri krafti en áður.

„Ég er kominn hringinn,“ segir Ólafur en hann hóf feril sinn hjá Val. Hann bendir reyndar á það í samtali við CNN að eitt sé að vera þjálfari en allt annað að spila með liðinu. Leikmenn geti staðið sig vel á vellinum þótt þeir séu annars hugar og ekki vel upplagðir. Öðru máli gegni um þjálfara sem þurfi að gefa mikið af sér.

Nú segist hafa það að markmiði nú að vakna glaður á hverjum degi, standa sig vel og hafa jákvæð áhrif á aðra.

„Þegar ég næ þeim markmiðum þá verða það mestu afrek mín,“ segir Ólafur Stefánsson.