Ölgerð Egils Skallagrímssonar hefur sent frá sér yfirlýsingu um að fyrirtækið hafi stöðvað framleiðslu á drykkjarvörum sínum og muni ekki dreifa vörum sem framleiddar hafa verið síðustu daga. „Ástæðan er jarðvegsgerlar sem fundist hafa í neysluvatni í Reykjavík,“ segir í yfirlýsingunni.

„Gæðaeftirlit Ölgerðarinnar fylgir ströngum reglum og meðan ekki hafa fengist frekari upplýsingar frá Veitum um gæði vatnsins, verður framleiðsla ekki í gangi.“

Coca Cola hætti framleiðslu en hefur hana á ný

Stefán Magnússon sölu og markaðsstjóri hjá Coca-Cola á Íslandi segir að framleiðsla hjá fyrirtækinu geti hafist á nýjan leik seinni partinn í dag eða á morgun.

Segir hann framleiðslu fyrirtækisins hafa verið stöðvaða í gærkvöldi þegar eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá í ljós kom að bakteríumengun hafði borist í drykkjarvatn í mörgum hverfum í borginni, en nú væri ljóst að það hefði ekki átt við vatnið sem verksmiðja fyrirtækisins í Hálsahverfi við Höfðabakka notast við.

„Í gærkvöldi fór af stað ferli um matvælaöryggi og gæði hjá okkur, og ákváðum við að hætta framleiðslu meðan við fengjum nánari upplýsingar og taka frá vörur sem hafa verið framleiddar á þessum dagsetningum,“ segir Stefán en aðspurður segir hann þar vísað í vörur framleiddar á föstudaginn 12. janúar og í gær 15. janúar en engin framleiðsla hafi farið fram um helgina.

„Síðan þá höfum við fengið þær upplýsingar að við vorum aldrei inn á þessu sýkta svæði. Við höfum tekið sýni úr fullt af vörum og inntaksrörum og fleira og allt virðist í lagi, en áður en við vissum það stöðvuðum við s.s. framleiðsluna í gærkvöldi og í morgun.“

Vatnið kom ekki úr sýktum vatnsbólum

Stefán segir að framleiðsla þessa daga verði því send í búðir og ekki sé að vænta þess að einhver skortur verði í verslunum. „Ég efast um það, enda er janúar oftast hægasti mánuðurinn í árinu, svo ég býst ekki við að þetta hafi nein áhrif,“ segir Stefán sem ítrekar að vatnið sem til fyrirtækisins komi ekki úr sömu vatnsbólum og voru sýkt.

„Þessu til viðbótar fer allt inntaksvatn hjá okkur í gegnum sýjur og útfjólublátt ljós sem drepur bakteríur. En við tókum þessu bara mjög alvarlega og brugðumst við svo að þegar við vissum meira gætum við tekið aðrar ákvarðanir.“