Fyrirtækið Codland, sem sprottið er af útgerðarfyrirtækjunum Vísi og Þorbirni, hefur undanfarið unnið að því að fullnýta fiskiafurðir. Fyrirtækið hefur um nokkurt skeið unnið slóg úr fiski í hrálýsi en er nú einnig farið að nýta þorskroð í framleiðslu kollagens. Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codland, segir Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra Sjávarklasans, hafa átt frumkvæðið að því að farið var að vinna kollagen. Hann hafi unnið að verkefninu í tvö ár þegar Codland kom að því.

Efnið kollagen er eitt öflugasta byggingarprótín líkamans. „Geta líkamans til að framleiða kollagen minnkar upp úr 25 ára aldri en kollagen er meðal annars nauðsynlegt til að viðhalda mýkt og teygjanleika í húð,“ útskýrir Erla Ósk. Efnið er m.a. notað í bótoxmeðferðir og inntaka þess kemur í veg fyrir hrukkumyndun, en er hægt að taka efnið inn sem bætiefni og því hefur líka verið bætt út í snyrtivörur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .