Næst stærsta lánastofnun Þýskalands, Commerzbank, stefnir á að skera niður í starfsmannahaldi um 9.600 störf á næstu fjórum árum. Í yfirlýsingu bankans sagði að árið 2020 stefndi hann á að hafa „aukið hagnaðargetu sína á sjálfbæran hátt.“

Ráða einnig 2.300 nýja starfsmenn

Á sama tíma hyggst bankinn einnig ráða 2.300 manns í nýjar stöður í þeim deildum þar sem vöxtur ríkir. Á föstudag mun stjórn bankans taka afstöðu til nýju stefnumótunarinnar, en á síðasta ári störfuðu um 51.300 manns hjá bankanum.

Þessi tilkynning kemur á sama tíma og þýsk stjórnvöld neita að þau séu að undirbúa björgunaráætlun fyrir Deutsche bank, en hann stendur frammi fyrir 14 billjarða dala sektargreiðslu til bandaríska dómsmálaráðuneytisins vegna undirmálslánaviðskipta fyrir hrun.

Sameining liður í áformum

Stefna Commerzbank er að einblína á kjarnastarfsemi bankans sem sinnir litlum einkafyrirtækjum og einkaaðilum ásamt öðrum einkafyrirtækjum sem og að koma auknum hluta starfseminnar í stafrænt form.

Einn liður í umbótunum sem reiknaðar eru að andvirði 1,1 milljarður evra, eða 141 milljarður króna, er að sameina dótturfélagið Mittelstandsbank sem sinnir miðlungsstórum þýskum fyrirtækjum við fyrirtækjasvið meginbankans. Af því tilefni þarf bankinn „líklega“ að afskrifa skuldir að andvirði 700 milljóna evra.

Dregur úr fjárfestingarstarfssemi

Jafnframt stefnir bankinn að því að draga úr fjárfestingarbankastarfsemi sinni, sem bankinn býst við að muni „draga úr tekjusveiflum og regluáhættu ásamt því að losa fjármagn til fjárfestinga í kjarnastarfssemi sinni.“

Þrátt fyrir afskriftirnar og væntinga um tap af skipaflutningum býst bankinn við því að skila hagnaði á árinu.

Býst bankinn við að hefja fljótlega viðræður við fulltrúa starfsmannanna um niðurskurðinn, sem búist er við að þýði að starfsmönnum muni fækka um 7.300, þegar tekið er tillit til væntinga um 2.300 ný störf. Gengi bréfa bankans hefur lækkað um 1,37% í dag