Nýsköpunarfyrirtækið Controlant og Promens Dalvík undirrituðu nýverið samkomulag um víðtækt samstarf í þróun, sölu og markaðssetningu á sjálfvirku rekjanleikakerfi fyrir umbúðir. Promens framleiðir m.a. fiskiker á Dalvík. Samningurinn er til 10 ára.

Fram kemur í tilkynningu að Controlant hafi á undanförnum árum þróað þráðlausar lausnir sem notaðar eru til gæðaeftirlits í virðiskeðjum notenda. Félagið hefur náð umtalsverðum árangri í markaðssetningu lausna til eftirlits með hitastigi í lyfja- og matvælaiðnaði á innlendum og erlendum markaði.

Í tilkynningunni er haft eftir Gísla Herjólfssyni, framkvæmdastjóra Controlant, að samstarfið sé stór áfangi í sögu fyrirtækisins. „Okkar lausnum hefur verið vel tekið af notendum á innlendum markaði og í Skandinavíu. Þetta samstarf opnar fleiri möguleika fyrir okkar lausnir á erlendum mörkuðum og það er mikil viðurkenning fyrir okkur að jafn öflugur aðili og Promens hafi valið okkur til samstarfs,“ segir hann.

Promens Dalvík er meðal þekktustu útflutningsfyrirtækja Íslendinga. Það hét upphaflega Sæplast en hefur frá árinu 2007 borið nafn móðurfélagsins Promens hf  sem í dag rekur 41 verksmiðju í 19 löndum. Controlant byggir lausnir sínar alfarið á íslensku hugviti, en fyrirtækið hlaut Gulleggið, nýsköpunarverðlaun Innovit, árið 2009. Þróunarstarf fyrirtækisins hefur verið stutt af Tækniþróunarsjóði.