Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, fagnar ákvörðun Theresu May forsætisráðherra Bretlands um að boða til þingkosninga 8. júní næstkomandi.

Þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni slæma stöðu Verkamannaflokksins eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , segist hann ætla að bjóða kjósendum upp á raunhæfan valkost við Íhaldsflokk forsætisráðherrans.

„Ég fagna ákvörðun forsætisráðherrans um að gefa bretum tækifæri til að kjósa sér ríkisstjórn sem muni setja hagsmuni meirihlutans í fyrsta sæti,“ hefur breska blaðið Telegraph eftir Corbyn.

„Verkamannaflokkurinn mun bjóða íbúum landsins upp á raunhæfan valkost við ríkisstjórn sem hefur ekki tekist að byggja upp efnahagslífið, fært íbúunum lækkandi lífskjör og skaðlegan niðurskurð til handa skólum og almenna heilbrigðiskerfinu.“