Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, sætti harðri gagnrýni á breska þinginu í dag, en í dag sat forsætisráðherra, David Cameron, fyrir svörum þingmanna í umræðum um Brexit kosningarnar. Á meðan Corbyn var að flytja sitt mál mátti heyra samflokksmenn hans kalla til hans og skora á hann að segja af sér. Pólitíska fréttasíðan Order-order.com hefur birt myndskeið af þessu sem sjá má hér.

Mjög víðtæk uppreisn geisar nú innan þingflokks verkamannaflokksins og hefur hver skuggaráðherrann á fætur öðrum sagt af sér. Kenna þeir Corbyn um hvernig fór í þjóðaratkvæðagreiðslunni um veru Bretlands í ESB, en hann þótti af mörgum ekki hafa staðið sig sem skyldi í baráttunni fyrir áframhaldandi veru Breta í sambandinu.

Eru svo margir þingmenn hættir í skuggaráðuneytinu að David Cameron henti gaman að því í einu svari sínu í dag. Gerði hann grín að þeirri stöðu sem Corbyn væri í og sagði hana ef eitthvað vera erfiðari en staða Camerons sjálfs, sem tilkynnti sjálfur afsögn sína þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir.