Steve Pappas, aðstoðarforstjóri Costco í Evrópu, segir að sérstaða Costco felist í því að verslunarrisinn geti keppt við alla á markaðnum. Í viðtali Landsbankans við Pappas, sem birtist í tímaritinu Verslun og þjónusta , segir hann að þau beini sjónum sínum ekki að einum samkeppnisaðila.

„Allir, í rauninni. Það er okkar sérstaða. Við keppum við byggingarvöruverslanirnar, íþróttavörubúðir, raftækjaverslanir, kjörbúðir og húsgagnasala en beinum ekki sjónum okkar að neinum sérstökum,“ segir Pappas í viðtalinu.

Costco mun meðal annars selja bensín á tólf dælum fyrir utan vöruhúsið í Kauptúni, undir merkjum Kirkland, húsvörumerkis Costco-keðjunnar, en bensínið verður keypt af innlendum birgjum, að því er kemur fram í viðtalinu.

Selja bæði íslenskar og erlendar vörur

Costco á Íslandi kemur til með að flytja inn talsvert úrval af erlendum vörum, en kemur einnig til með að selja íslenskar vörur, sér í lagi þeir sem innflutningshömlur gilda um, til að mynda mjólkurvörur og kjöt.

„Við hlökkum mjög til að kaupa vörur frá innlendum birgjum, og sumar íslenskar vörur eru þess eðlis að það er ekki til neitt sambærilegt fyrir okkur til að flytja inn. Það sem mér finnst þó enn meira spennandi eru möguleikarnir fyrir íslenska framleiðendur, að koma vörum sínum í búðir okkar erlendis – og þá er ég jafnvel að tala um öll 725 vöruhúsin. Ef það eru framleiðendur hérlendis sem gætu séð okkur fyrir gæðavörum í nægu magni, mér dettur til dæmis í hug þorskur eða eldislax, þá gætu orðið til viðskiptasambönd hér sem allir hagnast á,“ er haft eftir Steve í viðtalinu.