Guðrún Ragna Garðasdóttir framkvæmdastjóri Atlantsolíu segir að þrátt fyrir að eldsneytisverð hafi hækkað um sex krónur frá mánaðamótum hyggist félagið áfram verðstríði við Costco, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá tilkynnti félagið um síðustu mánaðamót að það hygðist vera með lægsta eldsneytisverðið á stöð sinni við Kaplakrika, sem er sú stöð sem er næst verslun Costco.

„Við erum ekkert að fara að hætta í þessari baráttu. Við erum í þessu af fullri alvöru,“ segir Guðrún Ragna þrátt fyrir að eldsneytisverð félagsins sé nú einni krónu dýrara en hjá Costco. Þegar Atlantsolía tilkynnti um verðstríðið lækkað félagið bensínverðið úr 211,9 krónum niður í 189,9 krónur, eða um 22 krónur á stöðinni við Kaplakrika. Svipuð lækkun var á verði díselolíu.

Nú hafa hækkanir á heimsmarkaðsverði skilað sér í eldsneytisverði félagsins á þessari stöð einnig, en verðið er komið í 195,9 krónur og svipuð hækkun hefur verið á verði díselolíu. Í gær var hins vegar verð eldsneytis hjá bensínstöð Costco við Kauptún einni krónu ódýrara, en Atlantsolía bendir þó á að ekki þarf að vera með aðildarkort til að versla hjá þeim.