Fyrstu sjö mánuðina eftir opnun vöruhúss Costco í Garðabæ hefur innflutningur á salernispappír aukist um 61% miðað við sama tímabil árið áður að því er Fréttablaðið greinir frá.

Um er að ræða 748 tonna aukningu en mestallur innflutningurinn kemur frá Bretlandi. Frá því í maíbyrjun til loka nóvember í fyrra voru flutt inn 1.982 tonn af salernispappír, en á sömu mánuðum ársins 2016 nam magnið 1.233 tonn.

Nam innflutningurinn frá Bretlandi samtals 61 tonni í apríl í fyrra, en í maí nam innflutningurinn 194 tonnum. Júnímánuður var stærsti einstaki mánuðurinn með 346 tonn frá Bretlandi, sem nam 76% af öllum innflutningi á salernispappír í mánuðinum. Næst á eftir kom Svíþjóð með 27 tonn.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá um miðjan ágúst tilkynnti Papco um að fyrirtækið hefði þurft að segja upp einni vakt í framleiðslu á salernispappír hér á landi. Sagði aðstoðarframkvæmdastjórinn uppsagnirnar vera vegna tilkomu Costco sem hann sagði selja pappírinn á undirverði.