Bandaríski verslunarrisinn Costco Wholesale Corporation hagnaðist um 640 milljónir Bandaríkjadollara, eða jafnvirði 67,5 milljarða íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Fyrsti ársfjórðungur Costco á rekstrarárinu 2018 nær frá 4. september til 26. nóvember. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri fyrirtækisins, sem birt var eftir lokun markaða á fimmtudaginn.

Hagnaðurinn jókst um 17% milli ára, en á fyrsta ársfjórðungi síðasta rekstrarárs nam hagnaðurinn 545 milljónum dollara. Velta fyrirtækisins nam rúmlega 31 milljarði dollara á tímabilinu og jókst um 13,3% milli ára. Það jafngildir tæplega 3.300 milljörðum króna. Til að setja það í samhengi nam landsframleiðsla á Íslandi 2.449 milljörðum árið 2016.

Samkvæmt frétt MarketWatch skýrist aukinn hagnaður Costco einkum af aukinni netverslun, sem jókst um 43,5% milli ára. Sala í verslunum jókst um 10,5%.

Um er að ræða þriðja ársfjórðunginn í röð þar sem uppgjör Costco er umfram væntingar markaðsaðila. Gengi bréfa Costco hækkaði um 3,3% í viðskiptum gærdagsins.

Costco rekur 746 vöruhús um heim allan. Þar af eru 518 í Bandaríkjunum og Puerto Rico, 98 í Kanada, 37 í Mexíkó, 28 í Bretlandi, 26 í Japan, 13 í Kóreu, 13 í Tævan, níu í Ástralíu, tvö á Spáni, eitt í Frakklandi og eitt á Íslandi. Þá rekur Costco einnig netverslanir í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Mexíkó, Kóreu og Tævan.