Costco opnaði verslun sína 23. maí í Kauptúni í Garðabæ. Eftirvæntingin var mikil og lengi vel var röð í versluninni sem um tíma náði út á götu. Samhliða opnun verslunarinnar, sem selur meðal annars dagvöru, lyf, áfengi í heildsölu og hjólbarða, opnaði Costco bensínstöð sem seldi eldsneyti á umtalsvert lægra verði en hérlend olíufélög gerðu. Þegar líða tók á haustið dró þó bæði úr þessari miklu ásókn, sem verður varla lýst sem öðru en æði, bæði í verslun félagsins en ekki síður bensínstöð þess. Engu að síður fullyrti Morgunblaðið í lok sumars að markaðshlutdeild Costco á eldsneytismarkaði á höfuðborgarsvæðinu væri um 15%.

Í því samhengi er rétt að undirstrika að þegar bensínstöðin opnaði voru þar tólf bensíndælur en eru nú sextán.  Á höfuðborgarsvæðinu öllu eru um 70 bensínstöðvar. Þessar tólf dælur gengu því nánast stanslaust þann hluta dags sem bensínstöðin er opin, en afgreiðslutími hennar er bundinn afgreiðslutíma verslunar Costco. Engum dylst að afleiðingarnar af komu Costco til landsins eru miklar – bæði fyrir neytendur og kaupmenn. Við fyrstu sýn virðist sem sumir keppinautar Costco og aðilar á verðbréfamarkaði hafi vanmetið áhrifin af opnun verslunarinnar.

Mánuði eftir opnun verslunarinnar hafði gengi hlutabréfa í Högum lækkað um 15,2%. Þann 14. desember hafði gengi bréfa í Högum lækkað um 35%, úr 55,2 í 35,6. Markaðsvirði félagsins, sem að mestu er í eigu lífeyrissjóða, hefur því lækkað á tímabilinu úr 64,6 milljörðum í 41,7 milljarða. Greint var frá því í ágúst árið 2016 að lykilstjórnendur í félaginu seldu töluverðan hluta af bréfum sínum í félaginu, en salan var talin tengjast mögulegri innreið Costco á íslenskan smásölumarkað. Þá bendir ýmislegt til að Costco-áhrifin svokölluðu hafi haldið aftur af vísitölu neysluverðs.

Blindur til að sjá ekki áhrif Costco

Önnur félög fundu einnig fyrir Costco-áhrifunum á hlutabréfamarkaði. Á tæpum mánuði frá opnun Costco hafði gengi í bréfum N1 lækkað um 8,9% og bréf í Skeljungi 13,9%. Á sama tíma hækkaði Úrvalsvísitalan um 4,9% og aðalvísitala hlutabréfa um 11,9%. Auk þess hætti Kostur, verslun í eigu Jóns Gerald Sullenberger, rekstri í desember. Skýringin þótti nokkuð augljós, enda hafði Kostur fram til þessa mikið til selt vörur frá Kirkland, sömu vörur og Costco. Í upphafi bar nokkuð á því að hérlendir keppinautar Costco virtust hafa litlar áhyggjur af komu verslunarrisans til landsins.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu í október sagði Hendrik Egholm, nýráðinn forstjóri Skeljungs hins vegar: „Ég hef heyrt það sem hinir forstjórarnir hafa sagt um Costco, að það hafi lítil áhrif og þannig. Ég er þeim algjörlega ósammála. Ef þú horfir á Costco þá sérðu að það er mjög stöndugt fyrirtæki. Þú þyrftir að vera blindur til að sjá ekki þá staðreynd að það hefur algjörlega breytt leiknum á öllum smásölumarkaðnum á Íslandi. Ég tel að koma Costco hafi haft mjög jákvæð áhrif fyrir íslenska neytendur. Þeir hafa nýja og betri valkosti en þeir höfðu áður.“ Finnur Árnason, forstjóri Haga, sagði einnig í Viðskiptablaðinu: „Ég sagði það áður en þetta ár hófst að 2017 yrði mesta umbreytingaár í verslunarsögu á okkar tímum. Ég held að það hafi reynst rétt.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .