Íslenska sprotafyrirtækið CrankWheel, sem stofnað var af frumkvöðlunum Jóa Sigurðssyni og Þorgils Sigvaldasyni, undirritaði í dag samning við Íslandsbanka. Fyrirtækið hannar og framleiðir hugbúnað, sem býður fyrirtækjum upp á skjáspeglun.

Þjónustan mun kallast skjáspegill Íslandsbanka, er lausnin á að gera ráðgjöfum kleift að deila upplýsingum úr vafra með viðskiptavinum bankans. Sérfræðingar bankanna munu þannig geta farið yfir málin, leiðbeint og aðstoðað viðskiptavini á einfaldan hátt með einhverskonar netspjalli.

Lausnin virkar þannig að ráðgjafi bankans sendir viðskiptavinum tengil í SMS eða tölvupósti. Viðskiptavinir þurfa þannig ekki að hlaða niður sérstökum forritum, en geta engu að síður tengst ráðgjafanum og séð hvað hann er að sýna á skjánum sínum. Öll samskipti eru dulkóðuð og ná þar með að uppfylla öryggiskröfur Íslandsbanka.

Um er að ræða fyrsta bankann sem kemur í viðskipti við CrankWheel, en í samtali við Viðskiptablaðið sagði Jói aðra erlenda banka vera að hugsa sig um. „Við höfum verið að tala við Íslandsbanka í talsverðan tíma og erum ánægðir með samstarfið. Árið hefur farið vel af stað, notkun hefur þrjátíufaldast frá áramótum og teymið okkar hefur vaxið.“

Alls starfa 6 einstaklingar hjá CrankWheel og eru viðskiptavinir þess nánast að mestu erlendir. Í júní árið 2015 hlaut sprotafyrirtækið styrk frá tækniþróunarsjóð, sem Jói segir hafa komið sér afar vel.

Þorgils hefur rúmlega 15 ára reynslu á sviði sölu og þjónustu tengdum bönkum, tryggingum og fasteignum. Jói stýrði teymi hjá hjá Google í 10 ár, áður en að hann ákvað að snúa sér aftur að sprotafyrirtækjum.