Crocs Inc. hefur staðið í ströngu síðustu ár og hefur gengi bréfanna fallið um 30% á síðustu 12 mánuðum. Gengi bréfanna toppaði þó í síðasta góðæri, enda náðu gúmmískórnir þeirra miklum frama rétt fyrir hrun.

Hlutabréfin tóku þó nokkuð stökk í dag og hækkaði gengi þeirra um allt að 17,6%. Hækkunina má rekja til betri væntinga, en félagið telur sig hafa fundið sér nýjan farveg.

Fyrirtækið gerir ráð fyrir því að tekjur annars ársfjórðungs þessa árs muni nema um 305 til 315 milljónum dala. Samkvæmt FactSet gera greiningaraðilar þó ráð fyrir að tekjurnar verði um 323 milljónir dala.

Fyrirtækið mun halda áfram að loka verslunum, draga saman segl, til þess að fjárfesta á öðrum sviðum. Til að mynda hefur félagið lokað 16 verslunum á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Einnig hafa smærri dótturfélög verið seld.