*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 24. apríl 2018 09:28

D-listi færi úr 73% í rúm 41%

Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum myndi missa meirihluta sinn í bænum m.v. nýja skoðanakönnun vegna klofnings.

Ritstjórn
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins myndi Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja ekki ná kjöri í komandi sveitarstjórnarkosningum ef niðurstaða hennar kæmi upp úr kjörkössunum. Þó tók einungis rúmlega helmingur aðspurðra afstöðu til könnunarinnar, 13,5% sögðust óákveðin og tæplega fjórðungur vildi ekki svara.

Samkvæmt niðurstöðu þeirra sem tóku afstöðu, fengi flokkurinn einungis 41,2% og þrjá menn kjörna en í síðustu kosningum fékk flokkurinn 73,2%. Þá leiddi Elliði listann, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá tók Elliði að sér 5. sæti eftir uppröðun á lista flokksins í bænum.

Íris Róbertsdóttir, sem gengt hefur ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, leiðir klofningsframboðið Fyrir Heimaey í bænum en eins og Viðskiptablaðið sagði frá skoruðu 200 manns í bænum á hana að bjóða fram.

Nýtt framboð Írisar fengi 32%

Samkvæmt könnuninni fengi framboð hennar 31,9% og tvo menn kjörna, en Eyjalistinn sem er sameinað framboð Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna fengi 25,4%, sem er svipað fylgi og í síðustu kosningum. Þá fengu þeir 26,8% og tvo menn kjörna líkt og stefnir í nú.

Elliði segir að Sjálfstæðisflokkurinn stefni að því að ná fjórum mönnum inn og þar með meirihluta, en sjálfur býst hann ekki við að ná inn sem fimmti maður. Hann er samt sem áður bæjarstjórnarefni listans, en flokkurinn hefur verið meirihluta í bæjarstjórn í Vestmannaeyjum síðan árið 2006, eða frá því að hann settist í oddvitasætið.

90% af lánum bæjarins hafa verið greidd niður

„Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Í aðdraganda frágangs listans komu fram vangaveltur um lýðræðishalla um að sami einstaklingur sé í forsæti og bæjarstjóraefni og jafnframt með langmestu reynsluna. Því ákvað ég að stíga til hliðar og hleypa frambærilegu fólki ofar á listann,“ segir Elliði.

Elliði, Íris sem og Njáll Ragnarsson oddviti Eyjalistans, segjast öll leggja áherslu á að auka lýðræðið í bænum, en að öðru leiti eru þau öll sammála um að rekstur sveitarfélagsins hafi gengið vel á síðustu árum.

„Frá því við tókum við fyrir tólf árum hefur gengið einmuna vel,“ segir Elliði sem þó leggur áherslu á að það hafi verið á forsendum samstarfs innan meirihlutans og við minnihlutann. „Við höfum greitt niður um 90 prósent af lánum og skilað afgangi á hverju ári á kjörtímabilinu sem nú er að líða.“

Í könnuninni var hringt í 778 manns með lögheimili í Vestmannaeyjum þar til náðist í 604 með lagskiptu úrtaki, en hún var gerð í gær, 23. apríl. Svarhlutfallið var 77,6%, en 53,5% tóku afstöðu. 9,4% sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 13,5% sögðust óákveðin og 23,6% vildu ekki svara.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim