Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins vill að gengið sé varlegar til jarðar í MeToo umræðunni, en vonast þó eftir því að jafnvægi náist. „Ég myndi vilja sjá meiri varkárni í þessari MeToo umræðu, en við Íslendingar erum svolítið í ökkla eða eyra með allt saman og öfganna á milli,“ segir Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi.

„Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að ég er á móti öllu ofbeldi, hvort sem það er kynferðisofbeldi, andlegt ofbeldi, líkamlegt eða áreitni af hverju tagi, en þetta getur verið hættulegt vopn. Ég get nefnilega ekki á nokkurn hátt hugsað mér að daður og skemmtilegheit hverfi alveg úr íslensku samfélagi, því það er nú einu sinni þannig að fólk vill kynnast. En mér finnst þessi umræða vera að færast svo mikið út í öfgar, svo línan þarna á milli er að verða óskýr og margir upplifa að ekkert megi. Auðvitað á daður ekki að eiga sér stað á vinnustað, það á að nota kvöldin til þess.

Stofnanir og fyrirtæki eru komin með jafnréttisstefnu og alls kyns ferlar komnir út um allt kerfið, en ég veit ekki hvort þeir virka. Þetta er nefnilega komið á þann stað núna að hægt er að svifta karlmenn mannorðinu jafnhratt og að smella fingri, einungis með því að setja út á netið einhverjar ásakanir og þá á maðurinn erfitt með að verjast, það er í raun ekki nokkur leið fyrir hann. Ég vona og trúi að þessi umræða eigi eftir að ná jafnvægi og ég vildi óska að allar umkvartanir gætu farið lögformlega leið.“

Vildi vinna við lögfræðistörf

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir Vigdís að borgarstjóri hafi vitað af framúrkeyrslunni við braggann í Nauthólfsvík, og segir að hægt hefði verið að gera hann upp mun ódýrar . Jafnframt segir hún borgarstjórnarmeirihluta vinstriflokkanna vinna fyrir fjármagnseigendur með skortstefnu sinni í lóðamálum.

Hinn tiltölulega nýkjörni borgarfulltrúi segir að þegar hún hætti á þingi áður en kosningahrinan hófst árið 2016 hafi hún verið ákveðin í að hætta í stjórnmálum.

„Ég var búin að ná mínum markmiðum, fékk dúndrandi kosningu tvisvar, árið 2009 og enn betri árið 2013, en fyrir það hefði enginn trúað því að Framsóknarflokkurinn sem ég hafði starfað í frá því fyrir aldamót ætti yfirhöfuð eftir að fá mann í borginni, hvað þá að verða annar stærsti flokkurinn,“ segir Vigdís sem síðar tók þátt í stofnun Miðflokksins með sínum gamla formanni Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

„Ég meinti það algerlega frá hjarta mínu að ég væri hætt þó ég vildi áfram vinna með á bak við tjöldin, hjálpa til við að hringja í fólk og stilla upp lista og hvetja. Við settum saman lista fyrir þessi þrjú kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu á þremur sólarhringum, enda einungis fimm eða sex vikur fram að kosningum. Þetta var algert grettistak sem við lyftum, ekki það að það hafi verið nokkurt mál að fá fólk á lista, þó ég hafi ekki viljað fara sjálf.“

Framsókn brast kjarkur

„Í þessu samhengi er athyglisvert að Framsóknarflokkurinn gamli er í sögulegu lágmarki, fyrst oft hefur verið talað um að ógæfa flokksins hafi verið Sigmundi Davíð að kenna. En flokkurinn mælist nú með lægra fylgi en þegar krafan var sem mest á að hann myndi segja af sér, meðan Miðflokkurinn er algerlega að taka forystuna af þessum tveimur flokkum, svo ég spyr hver er sigurvegarinn núna.

Ég hef alltaf verið hissa á að Framsóknarmenn hafi á sínum tíma ekki staðið fastar í lappirnar með sínum formanni og forsætisráðherra. Þeim brast kjarkur, en ég hins vegar talaði fyrir því á sínum tíma að við ættum að fara beint í kosningar og endurnýja umboð okkar. En gamli valdahópurinn innan úr Framsóknarflokknum, sem mest var á móti Sigmundi, vildi ekki kosningar í apríl 2016.“

Vigdís segir að eftir að hafa lengst framan af hafnað því að fara fram í borginni þá hafi hún lokum látið verða við beiðni Sigmundar Davíðs um það, meðal annars vegna þess að hún hefði viljað tryggja að flokkurinn yrði einnig sterkur á sveitarstjórnarstiginu.

„Það var gengið á eftir mér því það vantaði einhvern sterkan í borginni, en ég hafnaði því afgerandi í nokkur skipti. En það hjálpaði alveg til, ég viðurkenni það, að ég tók ákvörðun um að fara fram að ég var enn að svipast um eftir fastri vinnu. Þegar ég var kosin á þing á sínum tíma var ég tiltölulega nýbúin með lögfræðinámið.
Sú þekking kom sér mjög vel á þinginu við lagasetningu, en á þessum tíma langaði mig að nota lögfræðina hinum megin við borðið. Ég var svo sem með nóg að gera í ýmiss konar lausaverkefnum, var að skrifa skýrslur og greip aðeins aftur í blómin sem var mjög skemmtilegt, enda er ég bæði garðyrkju- og blómaskreytingarmestari, fyrsti Íslandsmeistarinn í blómaskreytingum.

Ég sótti um tiltölulega mörg störf en komst þó ekki nema þrisvar eða fjórum sinnum í viðtal. Ég sótti til dæmis um hjá Ríkisendurskoðun, og hélt að ég myndi svífa þangað inn með mína reynslu, en svona fór þetta. Ég er forlagatrúar svo kannski var mér bara ætlað þetta hlutverk.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .