*

miðvikudagur, 22. ágúst 2018
Innlent 12. október 2017 09:29

Dælan nálgast eldsneytisverð Costco

Í gær munaði 5,9 krónum á lítrann milli lággjaldabensínstöðva N1 og verðsins á bensínstöð Costco.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Með hækkunum á bensínverði hjá Costco á undanförnum vikum og lækkunum hjá sumum keppinautum verslunarkeðjunar er svo komið að ekki munar jafnmiklu á verðinu og áður milli keppinauta. Þegar Costco hóf sölu eldsneytis við vöruhús sitt í Kauptúni í Garðabæ í sumar munaði allt að 30 krónum milli þeirra og helstu keppinauta.

En nú hafa lággjaldabensínstöðvar N1 sem bera nafnið Dælan komið verði sínu innan nokkurra króna fráviks frá bensínstöð Costco í Garðabænum að því er Fréttablaðið greinir frá. Er munurinn nú 5,9 krónur á lítrann á 95 oktana bensíni milli Dælunnar og Costco og 4 krónur á dísillítrann, en bensínstöðvar fyrirtækisins eru við Fellsmúla, Smáralind og Staldrið.

Kostaði bensínlítrinn í gær 177,8 krónur á Dælunni en 171,9 krónur hjá Costco, meðan dísellítrinn var á 167,9 krónur hjá Dælunni en 163,9 krónur hjá Costco.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafa fleiri olíufélög gripið til ráðstafana til að keppa við Costco, sem eins og fram hefur komið hefur náð að selja um 10% alls eldsneytis á landinu undanfarna mánuði. Til að mynda hefur verðið á bensínstöðvum Atlasolíu í nágrenni Kauptúns verið lægra en annars staðar hjá fyrirtækinu.

Stikkorð: N1 eldsneyti Costco bensín Dælan Atlasolía dísil