Fyrrverandi framkvæmdastjóri millibankamarkaða hjá Glitni, Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, var í dag dæmdur í tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir innherjasvik í Héraðsdómi Reykjaness. Þá verða 19,2 milljónir króna gerðar upptækar hjá honum. Friðfinnur var ákærður í maí fyrra fyrir að hafa selt hlutabréf sín í Glitni fyrir um 20 milljónir, er hann vissi um að bága stöðu bankans fyrir fall hans.

Ólafur Þór Hauksson segir í samtali við vb.is að í ljósi þess hvað fáir dómar á þessu sviði hafa fallið hér á landi sé fordæmisgildi þessa dóms mikið. „Dómurinn lítur greinilega á brot sem þessi alvarlegum augum enda er dómurinn í samræmi við dómkröfur ákæruvaldsins í málinu,“ segir Ólafur.

Í dómnum kemur fram að Friðfinnur seldi alls hlutabréf í Glitni fyrir 20,2 milljónir króna í mars, apríl og í september 2008.

Í niðurstöðunni er farið yfir stöðu Friðfinns í aðdraganda falls Glitnis, en í ákærunni er hann sagður hafa verið tímabundinn innherji. Fyrirtækjum beri að senda Fjármálaeftirlitinu lista yfir innherja og tímabundna innherja, en nafn Friðfinns var aldrei á slíkum lista. Í dómnum segir að það skipti hins vegar engu máli fyrir refsiábyrgð þótt hann hafi aldrei verið skráður á lista sem tímabundinn innherji og þótt regluvörður hafi veitt heimild til sölu hlutabréfanna. Á endanum sé það mat dómsins sem ráðið því hvort ákærði hafi verið tímabundinn innherji, enda væri það ótækt að einstaklingur gæti komið sér undan refsiábyrgð með því að vanrækja að vegkja athygli á því þegar hann telst vera tímabundinn innherji eða þegar regluvarsla FME virki ekki sem skyldi.

Dómurinn er langur, einar 58 síður að lengd, og kemur þar ítrekað fram það mat dómsins að í hvert sinn þegar Friðfinnur seldi bréf sín í bankanum hafi hann búið yfir innherjaupplýsingum og hafi því brotið gegn ákvæðum laga um innherjasvik.