Dagný Ósk Aradóttir Pind hefur hafið störf sem lögfræðingur BSRB. Hún tekur við starfinu af Sonju Ýr Þorbergsdóttur sem var kjörin formaður BSRB á þingi bandalagsins í október síðastliðnum. Dagný mun sinna verkefnum á sviði vinnuréttar og jafnframt vera sérfræðingur bandalagsins í jafnréttismálum.

Dagný lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Hluta námsins tók hún í skiptinámi við Kaupmannahafnarháskóla. Hún lauk einnig LLM gráðu í vinnurétti og samskiptum á vinnumarkaði frá Háskólanum í Tilburg, Hollandi, fyrr á þessu ári.

Síðustu ár hefur hún starfað sem lögmaður í verkalýðshreyfingunni, lengst af fyrir Rafiðnaðarsamband Íslands. Hún hefur einnig verið stundakennari í vinnurétti við Háskólann í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandalaginu.