Fyrst kaupa Íslendingar Magasin du Nord á Kongens Nytorv og nú setja fjárfestarnir frá litlu norðursjávareyjunni sig niður á næsta heimilsfang. Þannig byrjar frétt netútgáfu danska viðskiptaritsins Børsens af kaupum íslenskra fjárfesta á fimm stjörnu lúxushótelinu D?Angleterre sem greint var frá fyrr í dag.

Augljóst er af fyrstu viðbrögðum að Danir eru enn hissa á fjárfestingum Íslendinga þó fyrstu viðbrögð verði að teljast varfærnisleg miðað við það sem áður hefur sést.

Lúxushótelið D?Angleterre, sem er við Kongens Nytorv, á sér yfir 250 ára sögu og hefur í áratugi verið flaggskip danskra og skandinavískra hótela. Þannig má segja að hótelið fari í flokk með Magasin du Nord og Tívolí sem íslenskir fjárfestar voru einu sinni orðaðir við.

Á D?Angleterre eru 123 fyrsta flokks herbergi og aðstaða öll eins og best verður á kosið. Helstu þjóðhöfðingjar, viðskiptajöfrar og listamenn heims eru tíðir gestir á hótelinu. Hótel Kong Frederik er rótgróið fyrsta flokks 110 herbergja hótel við Ráðhústorgið, rétt við Tívolí og Strikið. Á hótelinu er hinn þekkti bar Queens Pub og veitingahúsið Brasserie Le Coq Rouge. Hótel Front er nútímalegt hótel við höfnina í Kaupmannahöfn, gegnt nýja óperuhúsinu, og í tveggja mínútna göngufæri frá Nyhavn. Góðir veitingastaðir eru á hótelinu. Copenhagen Corner er veitingastaður í iðu mannlífsins við Ráðhústorgið og Tívolí með pláss fyrir 250 matargesti og funda- og ráðstefnuaðstöðu fyrir um 400 manns.