Davíð Ólafur Ingimarsson hefur verið skipaður nýr forstjóri Guide to Iceland. Davíð hefur víðtæka rekstrar- og stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu og gegndi áður stöðu fjármálastjóra hjá Guide to Iceland. Þá hefur hann m.a. starfað sem fjármálastjóri Greenqloud, yfirmaður lánamála og sjóðastýringar hjá Landsvirkjun og setið í stjórn lífeyrissjóðs.

Xiaochen Tian, fráfarandi forstjóri, tekur við sem framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Guide to Iceland. ,,Með íslensku hugviti hefur okkur tekist að þróa heimsklassa hugbúnað og höfum við lengi leitað að hæfum forstjóra til að stýra jafn hratt vaxandi fyrirtæki og okkar. Það var því mikil ánægja að sjá Davíð stíga upp en fyrir vikið mun ég geta einbeitt mér betur að fjárfestingum og áframhaldandi vexti félagsins," segir Xiaochen.

Vilhelm Jensen, fráfarandi aðstoðarmaður fjármálastjóra, tekur við sem nýr fjármálastjóri Guide to Iceland. ,,Við hefðum aldrei sleppt Davíð sem fjármálastjóra félagsins nema að Vilhelm hefði sýnt sig og sannað að hann væri hæfur fjármálastjóri. Það var mikill styrkur fyrir okkur að fá þá báða til liðs við okkur frá Greenqloud”, segir Xiaochen enn fremur.