*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 24. nóvember 2017 19:36

Deilihúsnæði á 150 þúsund á mánuði

Fjölmörg herbergi með sameiginlegu eldhúsi í deilihúsnæði í London er fyrirmynd borgarstjórnar um lausn á húsnæðiskreppunni.

Ritstjórn
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi á lista Framsóknar og flugvallarvina og meðlimur í Miðflokknum lagði tillöguna fram.
Aðsend mynd

Borgarstjórn hefur samþykkt að að skoða úthlutun lóða til sérstaks deilihúsnæðis sem ódýran húsnæðiskost fyrir ungt fólk. Er í tillögunni sérstaklega vísað til að læra megi af stúdentagörðum og samvinnuhúnæðis eða kommúnu líkt og svokallaðrar Oak Tree byggingar í London sem af kynningarmyndbandi má sjá er uppsett mjög svipað og um stúdentagarða sé að ræða.

Af heimasíðu Oak Tree Collective má sjá að ódýrustu einstaklingsherbergin, sem deila eldhúsi með fleiri herbergjum kostar 200 pund á viku, eða sem samsvarar um 28 þúsund krónum. Í frétt FT um verkefnið frá árinu 2016 er talað um að mánaðarleigan muni kosta frá 1.075 pundum, eða 148 þúsund krónur á mánuði, en það er þá áætlað með öllum aukagreiðslum.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sem enn situr sem borgarfulltrúi lista Framsóknar og flugvallarvina, þó hafi skipt yfir í Miðflokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, lagði tillöguna fram en hún var samþykkt á borgarstjórnarfundi fyrr í vikunni og vísað til frekari vinnslu í starfshópi um ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Fyrir fólk sem hefur orðið undir í húsnæðiskreppunni

Í greinargerð með tillögunni er lagt til að lóðir yrðu sérstaklega skipulagðar fyrir slíkt deilihúsnæði til að auka fjölbreytni í húsnæðisvali og til að auka framboð.

„Til hliðsjónar er hægt að horfa til Old Oak byggingarinnar í London sem opnaði vorið 2016 sem vakið hefur athygli víða en þar er á ferðinni líklega eitt stærsta deilihúsnæði (house-share) sem vitað er um. Þar býðst hundruðum ungra Lundúnabúa sem hafa orðið undir í húsnæðiskreppunni að leigja herbergi og fá aðgang að töluverðri þjónustu,“ segir í greinargerðinni en þar er einnig vísað til lærdóms af stúdentagörðum.

„Kannað verði m.a. hvernig eignaform gæti verið mögulegt á slíku húsnæði t.d. hvort slíkt húsnæði gæti verið í eigu almennra leigufélaga, leigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða  eða að eignarhald slíks húsnæðis væri í sameign þeirra sem þar búa. 

Hvort breyta þurfi lögum til að gera slíkt húsnæði mögulegt á Íslandi svo sem þeim reglum sem gilda um stofnframlög. Hvaða hópar kæmu til greina við búsetu í slíku húsnæði svo sem hvort eingöngu yrði miðað við ungt fólk eða fólk á öllum aldri, hvort um félagslegt eða almennt húsnæði væri að ræða o.s.frv.“