Á morgun úrskurðar Héraðsdómur Reykjavíkur um frávísunarkröfu fasteignafélagsins Gamma ehf. á dómsmáli milli tveggja fyrirtækja um vörumerkið Gamma.

Eigendur fasteignafélagsins hafa einnig stefnt fjármálafyrirtækinu Gamma Capital Management hf. vegna málsins en firmamerkið Gamma ehf. var skráð árið 2005, af fasteignafélaginu, en fjármálafyrirtækið var stofnað árið 2008.

Gamma Capital Management mun umsvifameira fyrirtæki

Fasteignafélagið Gamma ehf. á og leigur út fasteignirnar Skólavörðustíg 7, Bergstaðastræti 4 og Týsgötu 8 ásamt nokkrum öðrum húsum í Reykjavík, en það er í eigu Magnúsar Stephensen og Hannesar Hilmarssonar, forstjóra flugfélagsins Atlanta að því er fram kemur á Vísi .

Gamma Capital Management ehf. er hins vegar töluvert umsvifameira fyrirtæki með um 115 milljarða króna í sjóðstýringu fyrir fyrirtæki, einstaklinga og lífeyrissjóði. Á það meðal annar og rekur Almenna leigufélagið sem er annað stærsta leigufélag landsins á almennum markaði.

Í fjölskyldunni síðan 1969

„Þetta býður upp á rugling og við viljum fá úr þessu skorið hvað er rétt og hvað er rangt,“ segir Magnús Stephensen, stjórnarmaður og einn eigenda Gamma ehf. í Vísi en hann segir nafnið vera honum kært.

„Þetta er búið að vera í minni fjölskyldu síðan 1969. Faðir minn rak fyrirtæki sem hét Gamma og sinnti ýmissi þjónustu fyrir auglýsingastofur, eins og innheimtu.

Svo var nafnið sett á ís en við félagarnir tókum það svo upp aftur árið 2005 og sitjum nú báðir í stjórn okkar fasteignafélags sem heitir Gamma ehf. og hefur starfað síðan þá.“