Komið hefur til átaka innan Sackler-fjölskyldunnar um hvernig beri að bregðast við fjölda lögsókna á hendur fjölskyldunni. Öll spjót hafa beinst að fjölskyldunni síðastliðna mánuði vegna ópíóðafaraldursins sem herjar á Bandaríkin og fjölda annarra ríkja.

Árið 1995 setti lyfjafyrirtækið Purdue Pharma verkjalyfið OxyContin á markað. Talið er að síðan þá hafi um 400 þúsund manns látið lífið í Bandaríkjunum einum vegna ofneyslu á því. Purdue Pharma er í eigu téðrar Sackler-ættar.

Auðæfi ættarinnar eru metin á 13 milljarða bandaríkjadollara, andvirði um 1,6 billjóna íslenskra króna á gengi dagsins í dag, en sem stendur eru um tvöþúsund dómsmál á hendur fjölskyldunni til meðferðar fyrir bandarískum dómstólum. Meðlimi fjölskyldunnar greinir á um hvort sætta skuli málin og þá hve háar sáttagreiðslurnar eigi að vera.

Deilurnar hafa ekki aðeins snúist um strategíu fyrir dómstólum. Nýverið hittust fjölskyldumeðlimir og ræddu hvort og hvernig ætti að svara þáttastjórnandanum John Oliver sem fjallaði um mál fjölskyldunnar nýverið. Engin sátt náðist þar heldur en deilt var um hvort Richard Sackler, annar stjórnenda Purdue til marga ára, ætti að biðjast afsökunar á ummælum í tölvupósti sem hann sendi frá sér. Í póstinum sagði hann meðal annars að faraldurinn væri ekki sök Purdue heldur þeirra sem misnotuðu OxyContin.

Nýverið náði Purdue sátt í máli sem höfðað var fyrir dómstól í Oklahoma. Sáttin felur í sér að fjölskyldan reiddi fram 75 milljónir dollara í sáttagreiðslu en til viðbótar komu 195 milljónir frá Purdue. Í yfirlýsingu frá fjölskyldunni sagði að sáttagreiðslan þar yrði ekki fyrirmynd í þeim málum sem útistandandi eru. Hluti fjölskyldunnar hefur lagt til að fyrirtækið lýsi yfir gjaldþroti til að komast hjá því að greiða frekari bætur.

Ítarlega er fjallað um málið á vef Reuters en þátt John Oliver um meint misferli Purdue og Richard Sackler má sjá hér að neðan.