Verðkönnun Félags íslenskra bifreiðaeigenda sýnir að Michelin dekk hjá Costco í Kauptúni eru töluvert ódýrari en sams konar dekk hjá N1, en Michelin dekkin eru þau einu sem vöruhúsið, sem opnaði í morgun eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, selur fyrst um sinn.

„Í því sambandi má nefna að gangurinn með umfelgun og jafnvægistillingu á 15 tommu dekkjum, 195/65, undir fólksbíl kostar 46.396 krónur hjá Costco en hjá N1 68.768 krónur. Félagsmenn í FÍB njóta afsláttarkjara hjá N1 og þá er verðmunurinn heldur minni,“ segir í fréttatilkynningu frá FÍB , en um er að ræða nálega þriðjungslækkun eða 32,5% lægra verð.

Þar er þó tekið fram að N1 hafi haft samband við félagið og sagt vegna mistaka röng verð hafa verið inn á heimasíðu þeirra.
„Mistök felast í því hjá okkur að ennþá er lager bakvið eldra munstursnúmerið í Michelin Cross Climate sem er frá síðasta vori en nýtt vörunúmer kom nú í vor frá Michelin og eins og sést er töluverður mismunur,“ segir N1 sem segir eldri vörunúmerin hafa verið tekin úr umferð.

Í Costco er hægt að kaupa hjólbarða í stykkjatali, en innifalið í kaupunum og aðildarkortinu er þjónustan sem þar er rekin, sem inniheldur bæði umfelgun og jafnvægisstillingu.