Unnið er að því að endurmeta útlánasafn Landsbankans sem stendur á bak við skilyrta skuldabréfið á milli gamla Landsbanka Íslands og og Nýja Landsbankans og er áætlaða að nýtt mat liggi fyrir í byrjun næsta árs. Matið miðast við virði lánasafnsins um næstu áramót og verður endanlegt þegar kemur að uppgjöri á milli gamla og nýja bankans á mögulegri útgáfu skuldabréfsins. Matið getur jafnframt haft áhrif á eignir bankans bæði til hækkunar og lækkunar.

Virði skilyrta skuldabréfsins stendur nú í 69 milljörðum króna og hefur hækkað í bókum nýja Landsbankans. Það verður að hámarki 92 milljarðar króna.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, að þegar samið var um það hvernig eigna- og skuldatilfærslum yrði háttað frá gamla bankanum til hins nýja náðist ekki samkomulag um það hvert virði eignasafnsins, sem færðist yfir, ætti að vera.

Í desember árið 2009 var ákveðið að ágreiningur um virðið yrði leiddur til lykta með mögulegri útgáfu skuldabréfs árið 2013 sem skyldi ákvarðast af virði tiltekins eignasafns. Þetta þýðir, að nýi bankinn hefur ekki lokið við að greiða gamla bankanum fyrir þær eignir sem voru teknar yfir. Hversu há upphæðin verður byggir á mati Deloitte.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.