Samhliða vaxandi umsvifum og stöðugt fjölbreyttari verkefnum hafa fimm ráðgjafar bæst í hóp um 50 ráðgjafa Deloitte Consulting, stjórnenda- og tækniráðgjafasviðs Deloitte, á Íslandi.

Í góðu samstarfi við samstarfsfólk Deloitte á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu, veitir Deloitte á Íslandi ráðgjöf við stefnumótun, rekstur upplýsingatækni og umbreytingu tækni, ferla og skipulags í einka- og opinbera geiranum.

Hinir fimm nýju ráðgjafar eru:

  • Birkir Snær Sigfússon

Birkir Snær er með M.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá ETH Zurich og B.Sc. í sömu grein frá Háskóla Íslands. Í náminu lagði hann áherslu á merkjafræði og gervigreind sem hann heldur áfram að sinna í starfi sínu hjá Deloitte.

  • Halla Berglind Jónsdóttir

Halla Berglind er með M.Sc. gráðu í viðskiptagreiningu (e. business analytics) frá Imperial College í London og B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Halla leggur áherslu á viðskiptagreind, gagnavinnslu, greiningar og gagnastjórnun.

  • Hjördís Lóa Ingþórsdóttir

Hjördís Lóa er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá HÍ. Hjördís er hluti af SAP teymi Deloitte og hefur yfir áratugs reynslu í ráðgjöf í fjárhagskerfum. Hjördís leggur áherslu á kennslu, prófanir, villugreiningu, uppsetningu kerfishluta og innleiðingu þeirra.

  • Perla Lund

Perla Lund er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur víðtæka reynslu af stjórnun, rekstri, stefnumótun og viðskiptaþróun. Helstu verkefni Perlu snúa að sjálfvirknivæðingu ferla, greiningum, endurskipulagningu upplýsingatækni, þjónustustjórnun og mótun breytingaverkefna með sérstaka áherslu á „agile“.

  • Rakel Eva Sævarsdóttir

Rakel Eva er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og hefur stundað nám á meistarastigi við nýsköpun og frumkvöðlafræði við sama skóla. Í starfi sínu hjá Deloitte leggur Rakel áherslu á breytingastjórnun á stjórnunarlegum og tæknilegum innviðum.

Björgvin Ingi Ólafsson, sviðsstjóri Deloitte Consulting á Íslandi segir spennandi að byggja upp íslenska hluta ráðgjafanets Deloitte. „Mikil tækifæri felast í því að veita íslenskum fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf til umbreytingar tækni og starfshátta, byggt á lausnum, reynslu og þekkingu stærsta ráðgjafarfyrirtækis í heimi” segir Björgvin Ingi.

Um Deloitte

Deloitte er stærsta fyrirtæki heims á sviði endurskoðunar og ráðgjafar. Um 280.000 manns starfa hjá fyrirtækinu í yfir 150 löndum um allan heim. Félagið er í fréttatilkynningu sagt leiðandi á sínu sviði og þjóni mörgum af stærstu fyrirtækjum heims, auk þess að þjóna stórum og smáum atvinnurekstri um allan heim.