*

föstudagur, 22. september 2017
Innlent 20. júní 2012 11:10

Deloitte stendur við mat sitt á Sparisjóðnum í Keflavík

Þorvarður Gunnarsson hjá Deloitte segir fyrirtækið hafa byggt mat sitt á gögnum frá stjórnendum sparisjóðsins.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Endurskoðendafyrirtækið Deloitte byggði mat sitt á virði eignasafns Sparisjóðsins í Keflavík í ársreikningi hans í lok árs 2008 á verðmati sem stjórnendur sparisjóðsins lögðu fram. Í ársreikningnum taldi Deloitte eiginfjárstöðuna jákvæða um rúma fimm milljarða króna. Í mati Íslenskrar endurskoðunar á eignastöðunnai í lok árs 2010 var eiginfjárstaðan hins vegar neikvæð um rúma 17 milljarða. Munurinn á verðmötunum nemur 22 milljörðum króna. 

Þorvarður Gunnarsson, endurskoðandi og forstjóri Deloitte, segir í samtali við DV í dag ekki kannast við að eignir hafi verið ofmetnar og stendur hann við það. Hann bendir hins vegar á fyrirvara endurskoðenda í ársreikningnum þar sem dregið er í efa rekstrarhæfi sparisjóðsins í ljósi þess eiginfjárhlutfallið hafi verið jákvætt um 7,06% þegar lögbundið lágmark var 8%. Í fyrirvaranum segir m.a. að ef aðgerðir stjórnar ganga ekki eftir og ríkisvaldið ákvaður að aðstoða ekki Sparisjóðinn í Keflavík ríki óvissa um framtíðarhorfur sparisjóðsins. 

RÚV hefur fjallað ítarlega um stöðu Sparisjóðsins í Keflavík áður en hann fór á hliðina og svarta skýrslu sem endurskoðendafyrirtækið PwC vann um hann. Þar kom fram að stjórnarmenn sparisjóðsins og skyldmenni þeirra hafi fengið fengið há lán hjá sparisjóðnum. Þá fengu þeir sömu og stjórnendur sparisjóðsins háar fjárhæðir afskrifaðar af skuldum sínum gagnvart sparisjóðnum. Að því viðbættu voru veð sparisjóðsins fyrir lánum lélegri en áður var talið.