Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur verið sýknað í Héraðsdómi Reykjaness af skaðabótakröfu Toyota á Íslandi vegna ráðgjafar fyrirtækisins um öfugan samruna.

Toyota hélt því fram að Deloitte hefði veitt fyrirtækinu ráðgjöf þegar Bergey, félag í eigu Magnúsar Kristinssonar, keypti Toyota á Íslandi árið 2005. Í framhaldinu tók Toyota Bergey yfir með skuldum og eignum. Slíkt nefnist öfugur samruni og var algengur á þeim tíma. Fyrirtækið varð hins vegar fyrir endurálagningu vegna samrunans sem nam 93 milljónum króna.

Málflutningur Toyota byggði á því að Deloitte hefði valdið fyrirtækinu tjóni vegna ráðgjafar við samrunann og skattskil hvað varði frádráttarbærni vaxtagjalda í kjölfar samrunans.

Í dómnum kemur hins vegar fram að Deloitte hafi hvorki veitt eigendum Toyota ráðgjöf um val á þeirri aðferð sem viðhöfð var við samruna fyrirtækjanna árið 2005 né endurskoðað ársreikning félagsins fyrir það ár.

Í niðurstöðunni segir einnig að sú vinna sem Deloitte innti af hendi í tengslum við samruna félaganna hafi verið í fullu samræmi við viðurkenndar aðferðir, innlendar sem og erlendar og því var Deloitte sýknað af kröfum stefnanda.

„Við teljum að niðurstaða dómsins sé í samræmi við málflutning okkar, þ.e. að sérfræðingar Deloitte ollu Toyota ekki tjóni vegna starfa sinna. Deloitte skorast ekki undan ábyrgð á ráðgjöf sem samið hefur verið um. Hins vegar sáum við ekki um skattalega ráðgjöf fyrir Toyota á Íslandi í umræddu máli. Dómurinn staðfestir að sérfræðivinna Deloitte olli Toyota ekki tjóni og var í fullu samræmi við viðurkenndar aðferðir sem beitt hafði verið um víða veröld,“ segir Sigurður Páll Hauksson, forstjóri Deloitte.

Dóminn má lesa í heild sinni hér .