*

sunnudagur, 16. desember 2018
Erlent 12. júlí 2018 14:52

Delta Air Lines lækkar afkomuspá sína

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines lækkaði í dag afkomuspá sína fyrir árið um 16%.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines lækkaði í dag afkomuspá sína fyrir árið um 16%. Stjórnendur félagsins segjast búast við því að kostnaður við kaup á flugvélaeldsneyti muni hækka um tvo milljarða dala á árinu.

Olíuverð hefur hækkað talsvet á undanförnum tólf mánuðum en olíukostnaður er alla jafna næst stærsti kostnaðarliður flugfélaga á eftir launum.

Í frétt Financial Times er bent á að þrátt fyrir fjölgun farþega og myndarlegan tekjuvöxt muni eldsneytishækkanir draga verulega úr hagnaði Delta á árinu.

Tekjur bandaríska flugfélagsins námu 11,8 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi og jukust um 10 prósent á milli ára en engu að síður dróst hagnaður félagsins saman um ríflega níu prósent. Munaði mestu um aukinn olíukostnað en hann jókst um 38 prósent á fjórðungnum og nam alls 653 milljónum dala.

Ed Bastian, forstjóri Delta, sagði að aðgerðir flugfélagsins við að draga úr óarðbæru flugi séu farnar að skila árangri.

Stikkorð: Delta Air Lines