Risabankinn Deutsche Bank AG má ekki deila upplýsingum sem hann kann að hafa um fjármál Bandaríkjaforsetans Donald Trump og möguleg tengsl hann við Rússland, þrátt fyrir beiðni frá bandarískum yfirvöldum. Fulltrúi bankans greindi Bandaríkjaþingi frá þessu í gær.

Í bréfi til fimm þingmanna Demókrataflokksins sagði bankinn að bandarísk persónuverndarlög meinuðu honum að deila upplýsingum um fjármál Trump.

„Við vonum að þið skiljið þörf Deutsche Bank á að virða þær takmarkanir sem þingið og dómstólar hafa sett til að vernda trúnaðarupplýsingar,“ skrifuðu lögfræðingar frá Akin Gump Strauss Hauer & Feld fyrir hönd bankans. Upphaflega fékk bankinn til 2. júní til að svara fyrirspurn þingmannanna en hann fékk síðan meiri tíma. Opinber gögn sýna að Deutsche Bank lánaði Trump milljónir Bandaríkjadala fyrir fasteignaviðskipti.

Demókratarnir sem sendu fyrirspurnina sitja í fjármálageiranefnd (e. financial services committee), en nefndin hefur lagalegt vald til að neyða bankann til að láta frá sér gögnin. Meirihluti nefndarinnar er hins vegar Repúblíkanar og því þarf aðstoð þeirra til að fá gögnin.