Evrópskir bankar hafa átt erfitt uppdráttar eftir fjármálakreppuna árið 2008. Þeir hafa starfað í nýju umhverfi sem einkennist af lágum og jafnvel neikvæðum vöxtum, litlum hagvexti og hertri reglugerð, sem síðan hefur skilað minni arðsemi á evrópskum bankamarkaði, einkum í Frakklandi, á Ítalíu og Spáni.

Ólánið eltir nú Deutsche Bank (DB), stærsta banka Þýskalands, einn stærsta banka Evrópu og eina mikilvægustu fjármálastofnun í heiminum. Árið 2016 hefur verið ógæfuár fyrir bankann og það harðnar sífellt á dalnum. Bankinn hefur í raun ekki jafnað sig eftir efnahagskreppuna árið 2008. Gengi hlutabréfa í DB hefur dalað frá árinu 2007 og hefur aldrei fallið jafn hratt og í ár, en virði hlutabréfanna er aðeins um 8% af há­marksvirði bréfanna í maí 2007.

Annus horribilis

Eftir runu hneykslismála, slæmra ákvarðana og óheppilegra atburða hefur gengi hlutabréfa í DB lækkað um 43% það sem af er ári. Stað­an endurspeglar ótta á fjármálamörkuðum.

Síðasti kaflinn í hrakfallasögu DB hófst fyrir um ári. Þá tilkynnti John Cryan, framkvæmdastjóri bankans, um umfangsmikla endurskipulagningu til næstu fimm ára, sem felur í sér fækkun starfa um 15.000 og lokun útibúa í 10 löndum. Þetta kom í kjölfar þess að bankinn var sektaður um 2,5 milljarða Bandaríkjadala af hálfu bandarískra og breskra eftirlitsstofnana fyrir að reyna að hagræða Libor og Euribor millibankavöxtum. Bankinn var svo sektaður í nóvember um 257 milljónir dollara fyrir að stunda viðskipti við lönd sem viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna náðu til.

DB bókfærði síðan tap í fyrsta skipti frá árinu 2008 fyrir árið 2015 undir lok janúar. Tapið nam 6,7 milljörðum evra eða 950 milljörðum króna. Kostnaður vegna málaferla, endurmats á eignum og endurskipulagningar voru helstu ástæður tapsins.

Um svipað leyti hríðféllu skilyrt breytanleg (CoCo) skuldabréf bankans. Hann greindi síðan frá því í mars að ágiskað virði afleiða á bókum bankans væri 52 trilljónir evra, eða 17-sinnum landsframleiðsla Þýskalands árið 2015 og 5-sinnum landsframleiðsla evrusvæðisins.

Ákvörðun Breta um að ganga úr ESB þann 23. júní hafði talsverð áhrif á starfsemi bankans, en um 19% af tekjum bankans koma frá Bretlandi. Sjö dögum síðar féll bankinn á álagsprófi bandaríska seðlabankans.

Þann 16. september tilkynnti bandaríska dómsmálaráðuneytið um himinháa sekt á hendur bankanum að fjárhæð 14 milljarðar dollara eða 1.600 milljarðar króna vegna ásakana um að að hafa veitt undirmálslán á fölskum forsendum fyrir um áratug. Bókfært virði eigin fjár bankans er 73,5 milljarð­ ar dollara, en markaðurinn metur virði bankans á 18,9 milljarða, sem þýðir að sekt bandarískra stjórnvalda nemur um það bil 74% af markaðsverðmæti bankans.

Þann 29. september náðu hlutabréf DB loks sögulegu lágmarki, þegar gengið fór í 11,48 dollara á hlut. Nokkrir vogunarsjóðir tilkynntu að þeir hefðu lokað stöð­ um sínum í bankanum í kjölfarið.

Á milli tveggja elda

Ekki er ljóst hvernig DB mun fara að því að greiða sektina eða hluta hennar án þess að flýja á náðir ríkisins og án þess að það muni veikja eða knésetja bankann. Vogunarhlutfall bankans er 3,5%, sem þýðir að hágæða eignir bankans ná aðeins yfir 3,5% af skuldum, en bankinn er skuldsettari en evr­ópskir bankar að meðaltali. Samkvæmt Basel III staðlinum má hlutfallið ekki fara niður fyrir 3%. Innlán í DB nema 567 milljörðum evra, skuldbindingar á borð við lán, afleiður og fjárfestingar nema 1,3 trilljónum, en handbært fé og innstæður í seðlabönkum nema aðeins 97 milljörðum. Ofan á það er arðsemi eigna neikvæð og tekjuskapandi eignir hrökkva ekki til að greiða rekstrarkostnað bankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð .