Ef fyrirhugaðar skattahækkanir á eldsneyti sem gert er ráð fyrir í ósamþykktum, en fyrirliggjandi drögum að fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, mun algengt verð á dísillítra hækka í 218,55 krónur og bensínlítrinn í 214,3 krónur að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Þessi hækkun miðast þá við að skattahækkanirnar í fjárlagafrumvarpi fyrri stjórnar komi allar fram í verði, að því er Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur reiknað út.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu mun kolefnisgjald á eldsneyti tvöfaldast, það er fara upp í 11 krónur fyrir bensín og upp í 12,6 krónur fyrir dísilolíu. Auk þess hækka fleiri gjaldaliðir sem og virðisaukaskattur á bensín og dísilolíu mun hækka.

Verðið hjá Costco myndi hækka um allt að 13,4%

Ef miðað er við lægsta söluverð eldsneytis í höfuðborginni, sem hefur verið undanfarna mánuði hjá Costco, þá mun hækkunin nema 12,6%, og færi verðið úr þeim 176,9 krónum sem það var á í gær upp í 185,63 krónur fyrir bensínlítrann um áramótin.

Dísillítrinn færi hins vegar úr 167,9 krónum upp í 190,5 krónur, sem er 13,4% hækkun. Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir hækkunina þýða mikla aukningu útgjalda fyrir heimilin.

„Fyrir fjölskyldu sem rekur dísilbíl sem ekið er 20 þúsund km á ári og eyðir að meðaltali 8 lítrum á hundraðið myndu eldsneytisútgjöld hennar hækka um 35.200 krónur,“ segir Runólfur.