Rannsóknateymi á vegum Háskólans í Exeter telur sig hafa vísbendingar um að í Englandi viðgangist sala á sjávarfangi þar sem háfiskar, sem taldar hafa verið í mikilli hættu um árabil, er seldar undir röngum tegundaheitum. Um erfðafræðirannsókn er að ræða sem náði til fisksala og veitingahúsa; ekki síst þeirra sem selja hinn þjóðlega rétt Fish&Chips. Hagsmunasamtök veitingamanna (NFFF) hafna niðurstöðunum og segja hráefnið koma frá sjálfbærum veiðum.

Vísindamenn Exeter-háskólans rannsökuðu vörur undir tegundaheitunum huss, rock salmon og rock eel, en komust að því að í 90% tilfella reyndist um að ræða spiny dogfish – sem hérna heima er vel þekktur fiskur og kallaður háfur.

Landanir á háf, sem veiddur er á vissum hafsvæðum við Suður-Ameríku, Afríku og í Kyrrahafi, hafa verið bannaðar í höfnum Evrópusambandsins og víðar síðan 2011 þegar tegundin var skráð á rauðan lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) sem tegund í mikilli hættu. Aðrar tegundir, einnig á lista IUCN, sem komu fram við erfðagreiningu vísindamannanna var deplaháfur og tegundir af ættkvísl músháfa. Þessar tegundir voru þó aðeins lítill hluti af þeim sýnum sem vísindamennirnir greindu, eins og kemur fram í umfjöllun fréttaveitunnar seafoodsource um málið.

Tegundasvindl

Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um þá hafa athuganir sýnt að vörusvik eru umtalsvert vandamál í alþjóðlegum sjávarútvegi. Tegundasvindl hefur til dæmis mælst allt að 30 prósent enda geta almennir neytendur átt erfitt með að greina á milli tegunda. Matís hefur undanfarin fimm ár tekið þátt í alþjóðlegu rannsóknaverkefni sem nefnist FoodIntegrity. Verkefninu var hrint af stað eftir hrossakjötshneykslið árið 2013. Þá komst upp að fjölmörg fyrirtæki höfðu selt neytendum hrossakjöt undir því yfirskini að um nautakjöt væri að ræða. Hneyksli þetta vakti heimsathygli og þá áttuðu margir sig á því hve erfitt væri að tryggja að matvæli innihéldu í raun þá vöru sem fullyrt er á umbúðum eða matseðlum veitingahúsa.

Niðurstaða vísindamanna Exeter- háskóla eru enn eitt dæmi þessa, og staðfestir það sem kom fram í Foodintegrity verkefninu að tegundasvindl er ein birtingarmynd þessara svika, og ekki síst með fisk sem hefur verið matreiddur þannig að erfitt er að greina hann til tegundar.

Uggar og brjósk

Annar angi þessarar rannsóknar var greining á uggum, brjóski og skráp háfiska sem voru til sölu þar í landi, og þá í verslunum og veitingahúsum með asískan mat. Komu í ljós fjölmargar tegundir háfiska sem eru flokkaðar í nokkurri eða mikilli hættu. Reyndust þeir sem buðu vörurnar til sölu ekki hafa hugmynd um hvaða tegundir var um að ræða, og margt benti til að um ólöglegan innflutning væri að ræða.

Í fréttum af rannsókninni kemur fram að allar opinberar tölur um verslun með þessar vörur séu stórkostlega vanáætlaðar. Mikið sé drepið af háfiskum sem meðafla í öðrum veiðum, í ólöglegum veiðum og svo bætist rangar skráningar við.

Er því haldið fram að mun meira sé drepið af þessum tegundum sem um ræðir í ólöglegum veiðum en með löglegum hætti, þó kaupmenn haldi á lofti trú sinni á góð viðskiptahætti og mikilvægi sjálfbærni við veiðar.