London Gatwick flugvöllur, í samstarfi við Dohop, býður nú fyrstur flugvalla í heiminum upp á að farþegar kaupi samsett flug í einum miða og tryggir jafnframt tenginguna. Ef farþegi missir af flugi sem keypt er í gengum þjónustuna bætir Gatwick þeim upp tjónið og kemur þeim í næsta flug. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dohop.

Þar segir að samvinnan virki þannig að flugleit Dohop finnur tengingar milli tveggja flugfélaga með millilendingu á Gatwick. Bókunin fer síðan fram á vef Gatwick, undir merkinu GatwickConnects. Flugvöllurinn gefur út miðann og tryggir tenginguna. Ef farþegi missir af flugi bætir Gatwick þeim tjónið og kemur þeim í næsta flug. Fyrir þetta tekur Gatwick 7.900 krónur.

Til að byrja með eru þrjú flugfélög með í GatwickConnects verkefninu; íslenska flugfélagið Wow air, norska lággjaldaflugfélagið Norwegian og breska flugfélagið Easyjet. Saman eru þessi flugfélög með 52% hlutdeild af öllu flugi um London Gatwick.

“GatwickConnects er bylting í þessum bransa og ef til vill er þetta ekki alveg augljóst hversu stórt þetta er í raun á heimsvísu fyrir fólk utan ferðabransans. Við erum þarna að gera ansi merkilega hluti sem eftir verður tekið og það kæmi mér ekki á óvart að fleiri flugvellir færu að óska eftir þessari tækni frá okkur,” segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Dohop.