Íslenski flugleitarvefurinn Dohop hefur verið tilnefndur sá besti í heimi, fimmta árið í röð af World Travel Awards. Dohop hefur unnið þessi verðlaun tvisvar, árin 2014 og 2016 og keppti þar við fyrirtæki á borð við Kayak
og Skycanner.

Kosing um sigurvegara fer fram meðal notenda og fyrirtækja í ferðageiranum en lokaathöfnin fer fram í Víetnam þann 10. desember næstkomandi.

Dohop hefur einnig hlotið tilnefningu sem “Besta tæknilausnin í ferðaiðnaðinum”, (e. World’s Leading Travel Technology Provider 2017). Um er að ræða lausn sem Dohop hefur hannað fyrir flugvelli og flugfélög til að auka tekjur þeirra. Meðal fyrirtækja sem nýta sér lausnina í dag er Gatwick flugvöllur í London, en þar knýr lausnin GatwickConnects vöruna þeirra.

Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop segir mjög ánægjulegt að fá svona tilnefningu í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.  „Þetta er staðfesting á því að við erum ennþá leiðandi fyrirtæki á þessum markaði og höfum þróað vöru okkar í takt við þarfir notenda,“ segir Davíð.

„Samkeppnin er hörð og því mikill heiður að hafa unnið þessi alþjóðlegu verðlaun í fyrra og vera tilnefnd fimmta árið í röð.” World Travel Awards voru stofnuð árið 1993 til að vekja athygli á, verðlauna og hampa því besta í ferðabransanum á heimsvísu. World Travel Awards leita sjálf að því besta sem er í boði í ferðabransanum og tilnefning Dohop er frá þeim komin.

Þetta árið er lokaathöfn World Travel Awards, “Óskarsverðlaun ferðabransans”, haldin í Víetnam þann 10. desember nk. Atkvæðagreiðslan er opin til 30. október. Allir geta kosið en atkvæði aðila í ferðaiðnaðinum telja tvöfalt.