Hæstiréttur hefur hafnað kröfu verjenda sakborninga í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings um að tveir dómara víki sæti í málinu. Er um að ræða dómaranan Ingveldi Einarsdóttur og Þorgeir Örlygsson.

Rökin fyrir kröfunni voru annars vegar þau að sonur Ingveldar er aðstoðarsaksóknari hjá embætti Sérstaks saksóknara, en sonur Þorgeirs er yfirlögfræðingur slitabús Kaupþings, en slitabúið hefur höfðað einkamál gegn sakborningum í sakamálinu.

Hæstiréttur rökstuddi höfnunina með þeim rökum að sonur Ingveldar hefði ekki unnið að málum er snertu Kaupþing banka og að sonur Þorgeirs hafi ekki komið að dómsmálum sem vörðuðu fyrrverandi stjórnendur Kaupþings og hefði ennfremur ekki fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu einkamálanna.

Málflutningur í málinu verður fyrir Hæstarétti á föstudaginn næstkomandi.