Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Guðjón St. Marteinsson, dómari í máli embættis sérstaks saksóknara gegn fjárfestinum Aðalsteini Karlssyni, vill bíða með áframhald málsins þar til niðurstaða liggur fyrir í máli Mannréttindadómstóls Evrópu í máli sem varðar svokallaða tvöfalda refsingu. Málið sem liggur fyrir Mannréttindadómstólnum er kæra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og fleiri tengd Baugsmálinu og snýr að því hvort standi gagnvart dómstólum að sami aðili þurfi að sæta tvöfaldri refsimeðferð vegna sama atviks í skattamálum. Búist er við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins í málinu í haust.

Fjallað var um mál Aðalsteins á VB.is í gær en það var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Fleiri mál eru af svipuðum meiði. Þau fjalla um ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur þeim fyrir að hafa dregið tap af fjármálagerningum, þ.e. ýmsum afleiðuviðskiptum jafnt með gjaldeyri og hlutabréf, frá hagnaði af sambærilegum viðskiptum. Fyrirtækjum og lögaðilum er heimilt að gera slíkt samkvæmt skattalögum en ekki einstaklingum og hafa þeir verið ákærðir fyrir undanskot frá skatti.

Í málunum öllum hafa viðkomandi sætt endurálagningu. Nokkur mál af þessum toga eru fyrir dómstólum og hafa dómar fallið í nokkrum þeirra, svo sem í máli Ragnars Þórissonar og Eiríks Sigurðssonar , sem kenndur er við verslunina Víði. Dómur er þegar fallinn í máli Eiríks í Hæstarétti en þar var hann dæmdur til að greiða 127 milljónir króna í sekt í stað 163 eins og héraðsdómur hafði dæmt hann til að greiða. Ragnar var hins vegar dæmdur til að greiða 24 milljónir króna í sekt.

Leiðrétting

Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að þingfestingu málsins hafi verið frestað. Það er ekki rétt og hefur verið fært til betri vegar.