Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ákvörðun bankaráðs Landsbankans um að 82% hækkun launa bankastjóra á 10 mánuðum óverjandi og í engu samræmi við aðrar launahækkanir að því er RÚV greinir frá. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hækkunina óverjandi dómgreindarbrest og slæmt innlegg inn í kjaraviðræðurnar sem nú standa yfir.

Eins og s agt hefur verið frá í fréttum fékk Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans 17% launahækkun á síðasta ári, sem kom til viðbótar við aðra hækkun 10 mánuðum fyrr. Standa laun hennar nú í 3,8 milljónum króna, sem bankaráðið segir nú samkeppnishæf laun við aðra forystumenn fjármálafyrirtækja.

Halldór Benjamín gagnrýnir þau rök bankaráðsins og bendir á að Landsbankinn sé ríkisfyrirtæki. „[R]íkisfyrirtækjum eru settar strangari skorður en öðrum fyrirtækjum. Til allrar hamingju virðist sem þessi hækkunartaktur sé undantekning frekar en regla ef við lítum til stærstu fyrirtækja landsins. Það gerir hins vegar hvorki lítið úr alvarleika málsins, né þeim dómgreindarbresti sem birtist í þessari ákvörðun,“ segir Halldór Benjamín sem segir þetta vera slæmar fréttir inn í yfirstandandi kjaraviðræður.

„]Þ]etta gerist hjá banka í eigu ríkisins, gengur þvert á vilja eigenda bankans, og er í senn óskynsamleg og óverjandi ákvörðun að mínu mati. Þessi hækkunartaktur sem þarna birtist stenst enga skoðun eða viðmið á vinnumarkaði.“

Fengu tilmæli þegar hættu að heyra undir kjararáð

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur í sama streng og segir þessa launahækkun úr takti við alla almenna launaþróun í samfélaginu. „Mér finnst þetta óskiljanleg ákvörðun hjá stjórn Landsbankans sem fékk tilmæli árið 2017 frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra um að gæta hófs í sinni starfskjarastefnu,“ segir Katrín en fleiri forstjórar ríkisfyrirtækja hafa þó hækkað umtalsvert í launum frá því ákvörðun um launakjör þeirra voru færð frá kjararáði um það leiti til stjórna fyrirtækjanna.

„[M]ér finnst þessi ákvörðun auðvitað vera úr öllum takti við bæði stefnu stjórnvalda og umræðu samfélagsins þar sem kjaraviðræður standa auðvitað yfir[...]. Langt umfram til dæmis umdeildar kjararáðshækkanir sem stjórnvöld hafa nú brugðist við. Við höfum lagt fram frumvarp um að laun æðstu embættismanna skuli héðan í frá vera fastbundin launaþróun á hinum opinbera markaði.“