*

sunnudagur, 24. september 2017
Innlent 6. júlí 2012 11:20

Domino's selur pizzur allan sólarhringinn

Domino's ætlar að hafa opið í Skeifunni allan sólarhringinn. Ekki eru allir á sömu klukkunni, segir markaðsstjóri.

Ritstjórn

Næturhrafnar sem hafa átt í basli með að seðja hungur sitt um miðja nótt og orðnir leiðir á sjoppufæði fá ósk sína uppfyllta á mánudag. Frá og með þeim degi mun Domino‘s á Íslandi hafa stað sinn í Skeifunni opinn allan sólarhringinn. Um er að ræða reynsluopnun í sumar. Verða viðbrögðin góð mun næturopnunin vara lengur. Svangir næturhrafnar verða hins vegar að bíta í það súra epli að heimsending er ekki í boði og því verða þeir að skjótast eftir pizzum og fara með þær heim eða snæða á staðnum.

Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að þetta muni vera í fyrsta sinn sem pizzastaður þjóni viðskiptavinum sínum allan sólarhringinn, ef frá er talin sú veitingaþjónusta sem veitt er á bensínstöðvum. Þess ber þó að geta að af skyndibitastöðum er  Subway á Fitjum í Njarðvík opinn allan sólarhringinn. 

Þá segir í tilkynningunni að þessar breytingar á opnunartíma fyrirtækisins séu liður í að mæta breyttum innkaupavenjum viðskiptavina. Forsvarsmenn Domino‘s eru bjartsýnir á að sá aukni kostnaður sem hlýst af næturopnuninni muni skila sér til baka, en þeir sem eru taldir líklegir til að nýta sér þjónustuna er t.d. fólk sem vinnur vakta- eða næturvinnu og námsmenn.

Í tilkynningunni eftir haft eftir Magnúsi Hafliðasyni, rekstrar- og markaðsstjóra Domino's á Íslandi, að landinn hafi tekið vel í næturopnanir og þróunin sú að sífellt fleiri verslanir hér hafi opið allan sólarhringinn.

„Það eru ekki allir á sömu klukkunni og því vildum við gera þessa tilraun til að koma til móts við þarfir viðskiptavina okkar,“ segir hann. 

Stikkorð: Domino's