Bandarískur dómstóll hefur lagt bann við sölu Samsung Galaxy Tab 10.1 spjaldtölvum. Bannið stendur yfir þar til dómstóllinn kemst að niðurstöðu í einkaleyfadeilu Samsung og Apple.

Apple hefur ásakað Samsung um að hafa brotið á einkaleyfi iPad með því að líkja eftir útliti spjaldtölvunnar vinsælu. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag. Þar segir jafnframt að helstu greiningaraðilar telji Samsung spjaldtölvuna einn helsta keppinaut iPad.

Í tilkynningu frá Samsung segir að fyrirtækið muni taka þessi nauðsynlegu lagalegu skref og að ekki sé gert ráð fyrir að bannið skaði reksturinn.

Þetta er ekki fyrsta málið sem kemur upp á milli fyrirtækjanna en þau hafa ítrekað sakað hvort annað um að stela ýmsum hönnunar- og tækniatriðum. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem öðru fyrirtækinu tekst að ná fram sölubanni á hitt.