Hæstiréttur staðfesti í dag dóm yfir fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings í stóra markaðsmisnotkunarmálinu svokallaða. Í dómi Hæstaréttar er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur staðfestur og refsing flestra ákærðra sömuleiðis, en refsing Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, var þyngd.

Í fyrsta kafla ákærunnar voru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson ákærðir fyrir að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af bankanum, með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í íslensku og sænsku kauphöllinni.

Í öðrum kafla ákærunnar voru Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, ákærðir fyrir markaðsmisnotkun, með því að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með hluti í Kaupþingi sem ranglega létu líta svo út að félögin Holt Investment Group, Fjárfestingafélagið Mata og kýpverska félagið Desulo Trading Limited, hafi lagt til fé til kaupa á hlutum í bankanum og borið þannig fulla markaðsáhættu.

Í þriðja kafla ákærunnar eru Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Magnús og Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána Kaupþings, ákærðir fyrir umboðssvik, með því að hafa árið 2008 misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir lánveitinga og veittu Holt Investment Group, lán til að fjármagna að fullu kaup á hlutum í Kaupþingi, án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar.