Dómur verður kveðinn upp í Aurum-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan tíu í fyrramálið. Þeir Jón Ásgeir Jóhannesson sem var aðaleigandi Glitnis, Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis eru ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við viðskipti með bresku skartgripakeðjuna Aurum Holding.

Sérstakur saksóknari segir að Glitnir hafi lánað FS38 til þess að kaupa liðlega 25% hlut í Aurum af Fons á yfirverði. Pálmi Haraldsson átti bæði FS38 og Fons. Samkvæmt ákæru mun hluti lánsfjárhæðinnar, eða tveir milljarðar króna, hafi farið inn á reikninga Jóns Ásgeirs og Pálma.

Sakborningar neita sök.