Þetta eru góð tíðindi fyrir Pírata og sýnir að við erum að vinna á og að almenningur er sammála okkar áherslum um að auka traust, taka í húsnæðismálunum og skapa gott samfélag fyrir alla. Það er þó enn tími til kosninga og við teljum okkur geta gert enn betur þannig að Rannveig Ernudóttir í 4. sætinu nái inn,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík um niðurstöðu könnunar sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag . Meirihlutinn í borginni heldur samkvæmt könnuninni.

Hún ítrekar að Píratar eru tilbúnir að starfa með hverjum þeim sem hefur sömu áherslur og Píratar og tekur ekki undir orð Lífar Magneudóttur í Stundinni um að Píratar hafi verið loðnir í svörum hvað meirihlutasamstarf snertir. „Við höfum verið mjög skýr með það að við getum unnið með flokkum sem eru traustsins verðir. Einn flokkur hefur útilokað sig frá samstarfi við okkur með sínum vinnubrögðum og hegðun og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Við ætlum ekki að taka til í Sjálfstæðisflokknum, hann verður að sjá um það sjálfur.“ Hún segir 70% þeirra sem hugnast að kjósa Pírata í kosningunum vilja Dag áfram á stóli borgarstjóra, en Píratar fari þó hvorki bundnir til kosninga né blint í meirihlutasamstarf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .