Niðursoðin þorsklifur frá félaginu Akraborg á Akranesi, sem er í eigu Lýsis, innihélt kadmíum yfir leyfilegum mörkum í Rússlandi að því er Fréttablaðið greinir frá. Ákvað þarlenda matvælaeftirlitið að auka eftirlit með vörum fyrirtækisins eftir að þrjú sýni þess skiluðu þessari niðurstöðu.

Samkvæmt ákvörðuninni þarf nú að taka sýni úr öllum sendingum fyrirtækisins til Rússlands, en um 10% af framleiðslu þess fer til Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstans, en rússneska matvælaeftirlitið sér um eftirlit fyrir öll þrjú löndin.

Þorvaldur Þórðarson, framkvæmdastjóri markaðsstofu Matvælastofnunar segir að stofnunin muni greina niðurstöður rannsóknanna frá Rússlandi og miða þær við mörk Kadmíums sem unnið er eftir hér á landi. „Svo munum við bregðast við eftir því hvernig niðurstaðan verður úr þeirri skoðun okkar,“ segir Þorvaldur, sem ekki segir ákveðið hvort starfsmenn Matvælastofnunar verði sendir í eftirlitsferð til fyrirtækisins.