Fyrr á þessu ári opnaði kísilverksmiðja PCC BakkiSilicon en hún er á Bakka við Húsavík. Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC BakkiSilicon , segir að þessir fyrstu mánuðir verksmiðjunnar hafi verið lærdómsríkir.

„Þetta er nýverksmiðja með nýju starfsfólki og við drögum lærdóm á hverjum einasta degi af því sem við erum að gera. Fyrir utan brunann sem við lentum í í byrjun júlímánaðar þá hafa hlutirnir ekkert verið erfiðari en ég bjóst við. Þeir sem hafa gengið í gegnum það að koma svona verksmiðju í gang vita að það er heilmikil vinna. Við gerðum okkur grein fyrir því og undirbjuggum okkur eins vel og við gátum. Ef maður vissi fyrirfram hvar vandamálin myndu koma upp væri auðvelt að koma í veg fyrir þau en það er því miður ekki þannig."

Ofninn ekki vandamálið

Í lok apríl á þessu ári var fyrri ljósbogaofn kísilversins á Bakka settur í gang. Fyrr í sumar lenti verksmiðjan í brunatjóni þegar eldur kom upp í verksmiðjunni og vegna þess var slökkt á ofninum í tvær vikur. Að sögn Hafsteins hafa aðrir þættir en ofninn sjálfur valdið vandræðum.

„Við höfum í sjálfu sér ekki verið í miklum vandræðum með ofninn, hann hefur staðið fyrir sínu. Það hafa frekar verið önnur kerfi sem hafa verið vandamálið, svo sem innmötun á hráefnum, kranar og fleira. Ofninn hefur lent í einhverjum bilunum en hann hefur ekki valdið miklum vandræðum."

Löng stopp hafa slæm áhrif á gæði framleiðslunnar

„Staðan hjá okkur í dag er fín. Ofninn er í gangi og er að framleiða. Hann er orðinn stöðugur í framleiðslunni. Við erum núna að framleiða þau gæði af málmi sem okkar viðskiptavinir vilja fá. Gæðin eru því að nálgast þann stað sem við viljum hafa þau. Þegar það er verið að setja svona ofn í gang þá eru allskyns efni inni í honum í byrjun sem þarf að brenna út og það tekur smá tíma að fá hann á þann stað þar sem hann framleiðir hágæða kísil.

Bruninn sem við lentum í hafði einnig nokkur áhrif, en vegna hans var slökkt á ofninum í tvær vikur. Það tafði okkur og eftir að ofninn var gangsettur á ný voru málmgæðin í honum verri en fyrir brunann. Það tók því tíma að komast aftur á þann stað sem við vorum áður komin á gæðalega séð. Það er sett blanda af hráefnum í ofninn og þegar það er slökkt á honum halda sum hráefnin áfram að brenna í hægum köldum bruna. Önnur hráefni gera það ekki og þar með er blandan orðin vitlaus og það tekur smá tíma að ná ofninum á þann stað sem hann á að vera.

Ofnarnir virka best ef þeir eru sem mest í gangi og það hefur slæm áhrif á gæði kísilmálmsins ef slökkt er of lengi á ofninum. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að stoppa þá inn á milli til þess að sinna viðhaldi á þeim, en löng stopp hafa slæm áhrif á gæði framleiðslu þeirra. Ofnarnir þurfa viðhald þar sem þetta er krefjandi umhverfi. það er mjög mikill hiti inni í honum og mikið magn af hráefnum sem fer í gegnum hann. Þetta umhverfi er krefjandi fyrir tækin og það þarf mikið að sinna þeim," segir Hafsteinn.

Annar ofn gangsettur fljótlega

Tveir ofnar eru í kísilveri PCC og enn á eftir að gangsetja annan þeirra. Hafsteinn segir að seinni ofninn verði settur í gang á næstunni. „Við erum að undirbúa uppkeyrslu á ofni númer tvö og hann mun vera settur í gang innan nokkurra vikna, endanleg dagsetning liggur þó ekki fyrir eins og staðan er í dag."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .