Í maí síðastliðnum nam erlend greiðslukortavelta 21,3 milljörðum króna samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Hlutfallsvöxtur frá fyrra tímabili er því um 7,1% og hefur hann ekki verið minni frá upphafi mælinga frá árinu 2012. Í krónum jókst kortaveltan um 1,4 milljarða frá maí í fyrra. Meginástæðan fyrir minni vexti kortaveltu nú er án efa sterkt gengi krónunnar að því er kemur fram í greiningu Rannsóknarseturs verslunnarinnar sem tekur saman tölur yfir kortaveltu ferðamanna.

Í síðasta mánuði var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Helst ber þar að nefna samdráttur í verslun en í heild dróst greiðslukortavelta saman um 4,7% frá fyrra ári úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí síðastliðnum. Kortavelta í gjafa- og minjagripaverslun dróst saman um 18,9%, fataverslun um 5,9% og önnur verslun um 10,9%. Dagvöruverslun var eini flokkurinn þar sem erlend kortavelta jókst í mánuðinum, um 12,8% frá sama mánuði í fyrra.

„Mest jókst kortavelta í maí í flokki farþegaflutninga, um 22,7% eða um 852 milljónir frá sama mánuði í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalin, en farþegaflug er langstærsti einstaki hluti farþegaflutninga í erlendri greiðslukortaveltu.

Næst mestur var vöxtur kortaveltunnar í flokki ýmissar ferðaþjónustu en undir flokkinn fellur þjónusta ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir. Velta þess flokks jókst um 13,2% frá maí 2016 og nam 3,5 milljörðum króna í maí síðastliðnum. Erlend greiðslukortavelta í gistiþjónustu jókst um 8,7% í maí síðastliðnum og nam 3,9 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða í sama mánuði fyrir ári. Vöxtur kortaveltu veitingastaða var heldur minni eða 0,9% frá fyrra ári og nam í maí  síðastliðnum 2.044 milljónum króna, 18 milljónum króna meira en í sama mánuði í fyrra,“ segir í greiningu RSV.