Umsóknum innlendra nemenda í íslenska háskóla fækkaði milli ára og telja talsmenn háskólanna að samdráttinn megi rekja til batnandi efnahagsástands. Á sama tíma finna háskólarnir fyrir aukinni aðsókn erlendra nemenda.

Minnkandi aðsókn í Háskóla Íslands

Í upplýsingum frá Háskóla Íslands kemur fram að líkt og í öðrum háskólum landsins hafi hægt og rólega dregið úr fjölda umsókna við skólann undanfarin ár í kjölfar batnandi efnahagsástands. Bæði umsóknum um nám og nemendum fjölgaði mikið í kjölfar efnahagshrunsins og á tímabili voru hátt í 15 þúsund manns skráðir í skólann.

Eftir því sem atvinnuleysi hefur minnkað í landinu hefur umsóknum fækkað og nemendum sömuleiðis. Líkt og hjá hinum skólunum tveimur hafa umsóknir erlendra nema aukist milli ára til móts við fækkun innlendra umsókna. Nokkur fækkun varð á fjölda erlendra umsókna á árunum 2013 og 2014 en samkvæmt skólanum skýrist það af því að tekið var upp umsýslu- og afgreiðslugjald vegna umsókna nemenda með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, að undanskildum Færeyjum og Grænlandi.

Met slegin í brautskráningu eftir hrun

Þetta hafi verið nauðsynlegt til að tryggja að um raunverulegar umsóknir væri að ræða enda mikil vinna því samfara að yfirfara og svara umsóknum. Með þessari ráðstöfun hafi nánast horfið illa unnar umsóknir sem oft bárust án fylgigagna. Í ár bárust Háskóla Íslands 7.733 umsóknir en það er 5,2% fækkun frá árinu áður þar sem skólanum bárust 8.160 umsóknir.

Aukin aðsókn í kjölfar efnahagshrunsins hefur leitt til þess að á undanförnum árum hefur hvert metið á fætur öðru verið slegið í fjölda brautskráðra kandídata. Þannig útskrifuðust til að mynda 3.044 manns frá skólanum árið 2015, 2.988 nemendur árið 2014 og 2.717 nemendur árið 2013.

Nánar er fjallað um máið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.