Væntingavísitala atvinnulífsins í Þýskalandi lækkaði fjórða mánuðinn í röð í september, úr 105,8 stigum í 104.2 stig. Hún hefur ekki mælst lægri frá því í febrúar á síðasta ári og var niðurstaðan jafnframt nokkuð undir væntingum greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir því að vísitalan myndi mælast 105 stig.

Helstu ástæðurnar fyrir minnkandi bjartsýni þýskra atvinnurekenda eru raktar til lausafjárkrísunnar á fjármálamörkuðum, hækkandi olíuverðs og styrkingar evrunnar - einkum gagnvart Bandaríkjadal, sem kemur hart niður á þýskum útflutningsfyrirtækjum.